Reglugerð orlofssjóðs
Reglugerð Orlofssjóðs Verkalýðs og sjómannafélags Bolungarvíkur
- Nafn sjóðsins.
Heiti sjóðsins er Orlofssjóður Verkalýðs og sjómannafélags Bolungarvíkur. Skammstafað VSB. Heimili hans og varnarþing er í Bolungarvík.
- Tilgangur sjóðsins.
Tilgangur sjóðsins er að auðvelda félagsmönnum VSB að njóta orlofs, koma upp og reka orlofshús og orlofsíbúðir fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra og styrkja félagsmenn til orlofsdvalar.
- Tekjur sjóðsins.
Tekjur sjóðsins eru:
a] Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins
b] Vaxtatekjur
c] Leigugjöld af orlofshúsum og orlofsíbúðum
d] Annað ófyrirséð
- Stjórn sjóðsins og hlutverk hennar.
Stjórn VSB er stjórn sjóðsins. Stjórnin skal gera tillögur um hvernig fé sjóðsins skuli varið. Úthluta félagsmönnum orlofsdvöl í orlofshúsum og orlofsíbúðum félagsins og beita sér fyrir því að félagsmenn njóti orlofs síns t.d. með sameiginlegum ferðalögum, sem orlofssjóður kostaði eða tekur þátt í að greiða. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja orlofsferðir á vegum eldri félagsmanna eða Félags eldri borgara. Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa samvinnu við önnur stéttarfélög um úthlutun orlofshúsa og önnur þau mál er varða starfsemi orlofssjóða stéttarfélaganna.
- Greiðslur úr sjóðnum.
Allar greiðslur úr sjóðnum aðrar en þær er varða daglegan rekstur hans, rekstrargjöld orlofshúsa/-íbúða, leigu orlofshúsa í eigu annarra og/eða til annarrar venjubundinnar starfsemi á vegum sjóðsins, skulu háðar samþykki félagsstjórnar. Á þetta einkum við um greiðslur sem ekki hafa áður verið hluti af hefðbundinni starfsemi sjóðsins, eða ef upphæðir teljast umtalsverðar miðað við þá starfsemi sem er á vegum hans á hverjum tíma. Stjórn félagsins skal ákveða hver verði hlutfallsleg þátttaka sjóðsins í rekstrarkostnaði félagsins.
- Endurskoðun.
Endurskoðendur sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur félagsins, reikningar birtir með félagsreikningi og bornir upp á aðalfundi til samþykktar.
- Varsla á fjármunum sjóðsins.
Stjórn félagsins skal annast vörslu sjóðsins á sem tryggilegastan máta er tryggi verðgildi og ávöxtun hans.
- Breytingar á reglugerð sjóðsins.
Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins, með samþykki 2/3 hluta atkvæða. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.
Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins þann 11. september 2005.