Saga verkalýðsfélagsins
Saga Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur
Verkalýðs – og sjómannafélag Bolungarvíkur var stofnað 27. maí 1931. Þann dag setti Hannibal Valdimarsson, sem var þá kennari í Súðavík (1929-1931), fund með verkafólki í Bolungarvík og úr varð stofnun félags til að berjast fyrir rétti launafólks. Auk vinnu við kennslu og ýmis önnur störf vann Hannibal í félaginu og varð síðar mjög atkvæðamikill forustumaður í verkalýðshreyfingunni og í stjórnmálum. Hann var meðal annars formaður Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði 1932-1939, bæjarfulltrúi á Ísafirði 1933-1949, forseti Alþýðusambands Vestfjarða 1934-1953 og forseti Alþýðusambands Íslands 1954-1971. Stofnendur Verkaýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur voru skráðir 46, allt verkafólk úr Bolungarvík. Upphaflegi tilgangurinn með stofnun VSB var að ná samningum við vinnuveitendur um að það kaup sem greitt vará þessum tíma gilti til 1. apríl 1932. Fyrsti formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur var Guðjón Bjarnason. VSB átti sér þó í raun lengri sögu því að forveri þess var Verkalýðsfélag Bolungarvíkur, sem stofnað var 8. október 1926. Stofnendur þess félags voru 54 karlar og 24 konur, allt verkafólk. Það félag var hinsvegar lagt niður þann 14. nóvember 1928. Þetta var þó ekki fyrsta félagið sem verkamenn í Bolungarvík stofnuðu því þann 26. febrúar árið 1917 var stofnað verkalýðsfélag í Bolungarvík. Ekki varð það þó langlíft og náði ekki að verða eins árs. Enn eitt félagið var stofnað þann 17. nóvember 1927. Það var sjómannafélag og fékk það nafnið Röst. Þetta félag leið undir lok en segja má að það hafi orðið að sjómannadeild innan Verkalýðsfélagsins þann 9. febrúar 1937.
Margar orrustur
Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur hefur marga hildi háð til bættra kjara fyrir alþýðuna og teljast sumar orrustur þess til sögulegra viðburða. Fyrsti sigurinn vannst þegar félagið fékk viðurkenningu sem samningsaðili fyrir hönd verkamanna og margir sigrar hafa unnist síðan.
Í eigið húsnæði
Félagið kaypti hús sitt, sem það á enn í dag, af Sparisjóði Bolungarvíkur árið 1972 og hélt sinn fyrsta stjórnarfund í eigin húsi þann 3. Janúar 1973.
Minna en króna á tímann
Mörg baráttumál komu til kasta VSB á fyrstu árum félagsins. Þar var meðal annars tillaga sem kom fram á fundi 19. janúar 1932 um um að reynt yrði að semja um að kaup verkafólks yrði eftirfarandi: Dagkaup karla verði frá kl. 7 árdegis til kl 6 síðdegis, 80 aurar og 1 króna frá kl. 6 síðdegis til kl. 10 síðdegis. Kaup kvenna verði 50 aurar á dagtíma og 70 aurar síðdegis. Helstu mál félagsins í dag eru kjara- og réttindamál hverskonar, endurmenntunarmál, velferðar- og menningarmál.
Guðjón Bjarnason,fyrsti formaður félagsins. Hann var formaður frá 27.maí 1931 til 10.maí 1942 | Jón Tímóteusson, formaður frá 30.júní 1942 til 1950 |
Ingimundur Stefánsson, formaður árin 1951 og 1952 | Páll Sólmundsson, formaður frá 19.feb 1953 til 16.feb 1958 |
Þrír formenn VSB. Frá vinstri Karvel Steindór Pálmason formaður frá 16. febrúar 1958 til 27. júní 1991 eða í rúm 33 ár, Daði Guðmundsson formaður frá 27. júní 1991 til 26. apríl 1998 eða í tæp 7 ár og Sigurður Ástvin Þorleifsson, formaður frá 26. apríl 1998 til 10. nóvember 2000. |