Reglugerð sjúkrasjóðs

REGLUGERÐ SJÚKRASJÓÐS
VERKALÝÐS OG SJÓMANNAFÉLAGS BOLUNGARVÍKUR

1. grein.
Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Verkalýðs og Sjómannafélags Bolungarvíkur. Sjúkrasjóðurinn er samtryggingarsjóður sjóðsfélaga. Heimili hanns og varnarþing er er í Bolungarvík. Sjóðsfélagar eru þeir sem skilað er af umsömdu iðgjaldi til sjóðsins samkvæmt kjarasamningum.

2. grein.
Markmið.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja sjóðfélaga sem missa atvinnutekjur vegna 
sjúkdóms eða slysa, með greiðslu dagpeninga, svo og greiðslu útfararkostnaðar eftir þeim skilyrðum, sem sett eru í reglugerð þessari.

Sjóðurinn getur varið fé til að stuðla að bættu heilsufari sjóðfélaga með framlögum til rannsókna og fyrirbyggjandi verkefna á sviði heilbrigðis- og öryggismála.

3. grein.
Tekjur sjóðsins eru:

  1. Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
  2. Vaxtatekjur.
  3. Gjafir, framlög og styrkir.
  4. Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.

4. grein.
Réttur til dagpeninga.

Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum.

  1. Einungis þeir sem sannarlega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast.
  2. Þeir sem greidd hafa verið af til sjóðsins iðgjöld skv. kjarasamningum í a.m.k. 6 mánuði.
  3. Hafi umsækjandi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu innan sjóðsins.
  4. Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á að félagsgjöld til félagsins hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánaði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

5. grein.
Dagpeningar og dánarbætur.

  1. Frá og með fyrsta degi eftir að samningsbundinni eða lögákveðinni greiðslu frá vinnuveitanda lýkur greiðast dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði ).  
    Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysa-tryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, vera 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
     
  2. Dagpeningar greiðast í 90 daga ( 3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðenda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna.  Greiðslur skulu vera 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindar-skerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
     
  3. Dagpeningar greiðast í 90 daga ( 3mánuði ) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiða skal 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
     
  4. Dánarbætur, kr.408.202  greiðast til eftirlifandi maka eða dánarbús við andlát sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 12 mánuði af starfsævi hans. Ef liðin eru 5 ár eða meira síðan sjóðfélagi hætti störfum greiðast 181.400
    Bótafjárhæð  miðast við launavísitölu pr.  2020 og tekur sömu breytingum og hún. 
     
  5. Vegna meðferðar út af áfengis-, spila- eða fíkniefnasýki sjóðfélaga greiðast að lokinni meðferð dagpeningar í mest 8 vikur, einu sinni á hverjum þremur árum.  Greiða skal 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
     
  6. Sé móður nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að vera frá vinnu á fyrstu 7 mánuðum meðgöngutímans skal hún eiga rétt á dagpeningum eins og um veikindi væri að ræða. Greiða skal 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
     
  7. Dagpeninga skv. stafliðum a), b), c), e) og f) er heimilt að miða við meðaltal Heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Hámark dagpeninga skv. stafliðum a), b), c), e) og f) er kr. 408.202 – á mánuði.
    Þessi upphæð miðast við launavísitölu pr. apríl 2020 og tekur sömu breytingum og hún.      
     
  8. Dagpeninga samkvæmt a lið til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1% er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjald er lægra en 1%.
     
  9. Réttur skv. stafliðum a) b) c) og f) endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem, dagpeningagreiðslum lýkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.
    Dagpeningar skulu greiddir mánaðarlega.
    ​Réttur til styrks úr sjóðnum fyrnist sé hans ekki vitjað innan tólf mánaða frá því að bótaréttur skapaðist.

6. grein.
Geymd réttindi.

  1. Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði  og hefur síðan aftur störf á samningssviði félagsins endurnýjaðan  bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi  áður verið fullgildur sjóðfélagi.  Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilisástæðum.  
     
  2. Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði félagsins, enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.

7. grein.
Aðrir styrkir.

  1. Sjóðfélagi sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 12 mánuði fær greiddan fæðingarstyrk sem nemur kr. 60.000,00 enda sé greitt iðgjald til félagsins af viðkomandi í fæðingarorlofi.
     
  2. Sjóðurinn greiðir styrk vegna glasafrjóvgunar 100.000. kr í eitt skipti og til tæknisæðingar 25.000 kr. einu sinni á ári til sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðasliðna 12 mánuði.
     
  3. Heimilt er að greiða sjóðfélaga sem hefur verið í fullu starfi næstliðna 12 mánuði styrk vegna dvalar á Heilsustofnun í Hveragerði.  Styrkupphæð er að hámarki 5000. kr. á dag í allt að 4 vikur. Sjóðfélagi í hlutastarfi fær greitt hlutfallslega. Umsókn skal fylgja læknisvottorð frá þeim lækni sem sendi viðkomandi til dvalarinnar og dagsett kvittun frá Heilsustofnun.
     
  4. Sjóðurinn endurgreiðir sjóðsfélögum kostnað vegna krabbameinsleitar, hafi verið greitt af þeim til sjóðsins síðustu 12 mánuði. 
     
  5. Sjóðsfélagar fá styrk vegna endurhæfingar, sjúkraþjálfunar og sjúkranudds, allt að 25 skipti á hverju almanaksári, hafi verið greitt af viðkomandi til sjóðsins síðustu   12 mánuði. Endurgreidd eru 50% kostnaðarhluta sjúklings skv. reikningi frá viðkomandi stofnun, enda sé meðferðin samkvæmt tilvísun frá lækni.
     
  6. Í desembermánuði ár hvert skal verja, samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar hverju sinni, ákveðinni upphæð til félagsmanna sem eru óvinnufærir vegna örorku eða orðnir 67 ára.
     
  7. Styrkur vegna viðtalsmeðferðar hjá sálfræðingi, geðhjúkrunarfræðingi, félags eða fjölskylduráðgjafa. Miðað er við að meðferðaraðili falli ekki undir afsláttarkjör hjá Tryggingastofnun, svo sem eins og t.d. á við um geðlækna. Greitt er allt að kr. 5.000,- fyrir hvert skipti vegna sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins næstliðna 12 mánuði. Þó er aldrei greitt meira en sem nemur 50% af kostnaði í allt að 12 skipti á hverju almanaksári. Umsókninni skal fylgja frumrit af dagsettri kvittun fyrir meðferðinni, sem og ljósrit af síðasta launaseðli. 
     
  8. Greiddur er styrkur vegna tannlækninga sjóðfélaga, að hámarki 40.000 kr. á hverju almanaksári en þó aldrei meira en 50% af kostnaði hverju sinni. Skilyrði er að greitt hafi verið af viðkomandi til sjóðsins síðustu 12 mánuði.
     
  9. Styrkir vegna stafliðanna a) b) c) e) g) h) til þeirra sem greitt er hlutfallslegra lægra iðgjald af en 1 % er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjald er lægra en 1 %.

8. grein
Styrkir iðgjaldatengdir.

Greiddir eru styrkir til félagsmanna vegna líkamsræktar, myndatöku vegna sjúkdóma og slysa og kostnaður vegna hjálpartækja s.s. gleraugna og heyrnartækja ef ekki koma til greiðslur frá T.R. Einnig styrkir vegna sjónlagsaðgerða (laser) og lesblindugreiningar. Styrkir eru greiddir vegna meðferðar og lyfja við tóbaksfíkn. Upphæð skal miða við 50% af útlögðum kostnaði skv. reikningi, að hámarki 40% af iðgjöldum viðkomandi í sjúkrasjóð síðustu 36 mánuði.

Sjóðsfélagi sem látið hefur af störfum og greitt var af til sjóðsins a.m.k. síðasta árið fyrir starfslok getur nýtt þá inneign sem hann átti við starfslok á næstu 5 árum.

9. grein.
Umsókn og læknisvottorð.

Sá sem æskir greiðslu dagpeninga skal leggja fram skriflega umsókn til sjóðsins ásamt læknisvottorði er tilgreini þann dag sem hlutaðeigandi veiktist eða slasaðist og hvenær hann varð eða verður vinnufær á ný.  Ennfremur vottorð vinnuveitanda um starfshlutfall síðustu 12 mán og hvenær launagreiðslum lauk.  Sjóðurinn endurgreiðir umsækjendum kostnað af læknisvottorðum vegna umsóknar.
Eyðublöð fyrir umsóknir lætur sjóðsstjórn gera og lætur umsækjendum í té.

Heimilt er stjórn sjóðsins að krefjast þess að umsækjandi um dagpeninga leggi fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins.

10. grein.
Sjóðstjórninni er heimilt að verja hluta af tekjum sjóðsins til að standa straum af kostnaði við rekstur hans.  Þá má verja af fé sjóðsins til skrifstofutækja allt að helmingi á móti félagssjóði, enda séu þau eign sjóðsins í sama hlutfalli.

11. grein.
Engar greiðslur úr sjóðnum aðrar en áður hafa verið taldar eru heimilar nema til komi samþykki félagsfundar og enga upphæð má greiða úr sjóðnum nema eftir bókaðri ákvörðun sjóðsstjórnar.

12. grein.
Þegar farsóttir geisa getur félagsfundur, að fengnum tillögum sjóðsstjórnar, leyst sjóðinn frá greiðsluskyldu um stundarsakir.  Félagsfundur getur einnig, að fengnum tillögum sjóðsstjórnar, ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir, en þó ekki yfir skemmri tíma en 6 mánuði, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

13. grein.
Stjórn sjóðsins, afgreiðsla og reikningshald.
Stjórn sjóðsins er skipuð 3 mönnum og 3 til vara, sem eru kjörnir á aðalfundi.
Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Verkalýðs-og sjómannafélags Bolungarvíkur.

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af  félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfuns félagsins.

Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 5. gr.

Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landsambanda sbr. 3. mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.

14. grein.
Úttekt óháðra eftirlitsaðila.

Ár hvert, eigi síður en 31. maí skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.

Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.  Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þessa með ársreikningi sjóðsins.

Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.  Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. Stafliðum c, og d í 5. gr. Og stafliðum a, og b í 6. gr.  Ennfremur vegna inneignatengdra styrkja.

Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. Niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

15. grein.
Sjóðurinn ávaxtast í fasteignum sem félagið er eigandi að, hlutabréfum í skráðum félögum og skuldabréfum með bæjar- eða ríkisábyrgð, þó svo að ávallt sé handbært í almennum innlánsreikningum nægjanlegt fé til árlegra útgjalda.

Gjald til sjóðsins af kaupi verkafólks og sjómanna skal ákveðið í samningum milli Verkalýðs- og sjómannafélgs Bolungarvíkur og vinnuveitenda.  Innheimta gjaldsins annast skrifstofa félagsins.

16. grein.
Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur með 2/3 hlutum atkvæða.  Geta skal þess í fundarboði, ef stjórn sjóðsins hyggst leggja breytingar fyrir fundinn.

17. grein
Allar breytingar á reglugerð þessari skulu sendar skrifstofu A.S.Í. samkvæmt 2. málsgrein 42. greinar laga Alþýðusambands Íslands.

Þannig samþykkt á aðalfundi Verkalýðs og sjómannafélags Bolungarvíkur þann 3.júní 2020